Kvíði - Eimanaleiki - Lægð
Góðan og fallegan daginn, langt síðan...
Undanfarnar vikur hef ég verið í mikilli lægð.
Ástæðurnar eru margar, þó aðallega veikindi sem ég hef verið að díla við og endalausar rannsóknir - ég var bara eitthvað hrædd og óttaðist alltaf það versta þó ég vonaði það besta.
En ég fékk niðurstöður og þær voru eins “eðlilegar” og þær geta orðið fyrir mig.
Þegar ég fer að óttast svona mikið kemur það út í kvíða, depurð og andlegri lægð.
Kvíðinn minn er svo erfiður viðureignar. Ég kann ótal aðferðir við að vinna á honum en virðist ekki hafa náð almennilega tökum á honum undanfarið.
Ég ákvað að um leið og ég fengi svör við rannsóknunum þá myndi sjálfs-uppbyggingin á mér byrja aftur.
En ég ligg enn í lægðinni.
Þessi lægð virðist þrautinni þyngri í þetta sinn.
Ég er að upplifa mikinn einmanaleika og streitu, dagarnir eru margir hverjir erfiðir, en ég reyni mitt besta til að auðvelda mér lægðina.
Þó það sé auðvitað dagamunur á mér þá finnst mér þetta orðið langt tímabil og mér líður best einni. Ég hef þ.a.l dregið mig mikið í hlé og einangrað mig meira en mig í raun langar.
Ég hef velt því fyrir mér hvort þetta séu einhverjar afleiðingar af Covid? Og mögulega er einhver heilsukvíði að þvælast fyrir.. Ég er skíthrædd við þessa veiru. Mér finnst hún hafa tekið svo mikið frá okkur...
Ég var nefnilega mjög stabíl og bjartsýn allt síðasta ár, væntanlega vegna þess að ég sagði mér alltaf að þetta ástand yrði búið um áramót. En svo byrjar það alltaf aftur... það er ekki að hjálpa mér. Ég veit vel að þetta ástand er ekki gott fyrir mig, því ég þrífst best í samskiptum við fólk og í vinnunni minni, í góðra vina hópi og í frelsi – frelsi til þess að gera það sem mig langar að gera.
En ég er mjög lokuð tilfinninga-manneskja og þarf oftast að hafa einhvern til þess að geta hallað mér uppað, kvartað í og kveinað. Einhvern sem hlustar og skilur mig (eða þykist gera það).
Þó mér finnist alltaf óþarfi að vera að leggja það á herðar annarra að hlusta á „vælið“ í mér, því það eiga allir nóg með sig.
Fjarlægðin hefur þar af leiðandi aukist mikið á milli mín og annarra. Flestar minna vinkvenna búa langt í burtu. Það gerir það enn erfiðara að minnka fjarlægðina – mér finnst nefnilega ekkert sérlega skemmtilegt að tala um sjálfa mig í símann.
Ég hef alltaf reynt að vera dugleg að ferðast erlendis meðal annars til þess að hitta vinkonur mínar, en nú er það bannað.
Vá hvað ég hljóma neikvæð – ég er það samt alls ekki, þannig séð. Langaði bara svo að deila tilfinningunni og líðaninni...
Jæja - einmitt, nú er ég farin að afsaka mig...
Eins og sagt er í bókinni „Hugsanir hafa vængi“, þá eru afsakanir verkfæri einstaklings án markmiða og drauma.
Ég þarf að drífa mig að endurskrifa alla drauma mína og markmiðin – því ég á sannarlega nóg af þeim.
En eins og ég hef skrifað áður í bloggi þá hef ég alltaf verið öðruvísi en flestir. Ég áttaði mig almennilega á því síðasta sumar hvernig ég virka en þá greindist ég með ADHD - loksins.
Það gerði það að verkum að ég skildi loksins hvaðan ég kem, hvað veldur því að ég er eins og ég er.
Ég er með taugaröskun.
Það er alls ekki neikvætt, alls ekki... en það hefur samt staðið í vegi fyrir því að ég nái að fúnkera “full force” eins og flestir.
Ef ekki væri fyrir þrautseigju, seiglu, þrjósku og kraftinn sem í mér býr, þá væri ég ekki búin að ná að gera allt sem ég hef gert hingað til.
Það hefur alls ekki verið auðvelt, en ég hef gert það engu að síður.
Sálfræðingurinn sem greindi mig vildi að ég færi í einhverfurófs greiningu, því ég sýni mörg einkenni einhverfurófs – sem er auðvitað mjög vítt hugtak „rófið“. En vegna covid, þá komst ég ekki í þá greiningu.
Að vera með ADHD og allskonar annað gerir það að verkum að maður á auðvelt með að detta í svona lægð eins og ég hef verið í.
Þetta er allt fullkomlega eðlilegt, en þreytandi til lengdar.
Það besta er samt að ég er mjög meðvituð um ástandið og líðan mína. Því þakka ég allri sjálfsvinnunni sem ég hef unnið í gegnum árin.
Það er bara þannig að sá sem ekki hefur upplifað þunglyndi, kvíða, einmanaleika, depurð og andlega vanlíðan, getur því miður ekki skilið þetta ástand og hvað þá ástæðuna fyrir því að dvelja í þessu ástandi.
Mér finnst svo mikilvægt að opna umræðuna enn betur um andlega heilsu fólks því ég veit mjög vel að ég er ekki ein um að líða svona.
Þið eruð örugglega mörg þarna úti sem eruð að upplifa það sama og ég.
Þess vegna finnst mér nauðsynlegt að koma þessu frá mér.
Þið eruð ekki ein, langt frá því.
Það getur vel hljómar þversagnakennt að vinna með fólki við að byggja þau upp, með sjálfstækt, draumavinnu, markmiðasetningu og hvetja þau áfram í að láta sér liða vel og hugsa vel um sig - á meðan er ég sjálf í andlegri lægð.
En við sem vinnum með fólki og þeirra líf allan daginn, þurfum nefnilega að hlúa extra vel að okkur sjálfum.
Það er líka mikilvægt að hafa í huga að ég skil fólkið mitt, ég skil hvað þau eru að upplifa og ég skil líðan þeirra.
Það hjálpar óneitanlega mjög mikið í mínum samböndum við mína markþega.
En ég er góð í því sem ég geri, ég er góð í því að aðstoða og markþjálfa fólkið mitt, hvetja þau áfram og fylgja þeim eftir. Ég er góð í því að vera til staðar fyrir aðra, ég er góður klettur fyrir fólkið í kringum mig og ég er góð í því að halda fyrirlestra um ýmis málefni sem brenna á mér og það hjálpar mér að halda mig á línunni.
Ég er góð manneskja, góður markþjálfi og góður leiðbeinandi.
Munum að hrósa okkur sjálfum. Munum að hugsa vel um okkur. Munum að það er allt í lagi að eiga slæman dag.
Munum að það má vera maður sjálfur, hvernig sem við erum. Við eigum að segja það sem okkur finnst og það er allt í lagi að tala um tilfinningar og tala um það hvernig manni líður. Það er mannlegt, það er eðlilegt og það er góður og sterkur eiginleiki að geta sagt það upphátt.
Við erum öll einstök!
..þar til næst